154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:16]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður rekur hér niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Reykjavíkurborgar á hendur íslenska ríkinu vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það er rétt, sem kemur fram í máli hv. þingmanns, að með dómnum var stefnda, þ.e. ríkinu, gert að greiða borginni 3,3 milljarða kr. með vöxtum og dráttarvöxtum. Málinu var áfrýjað beint til Hæstaréttar og samkvæmt mínum upplýsingum ætti niðurstaðan í því máli að liggja fyrir í lok árs. Ég geri ráð fyrir því að svo verði. En varðandi stöðu Reykjavíkur og þær breytingar sem eru lagðar til í frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi var þar annars vegar verið að huga að því að bæta og einfalda regluverk jöfnunarsjóðs í heild með því að auka gagnsæi og forsendur vegna úthlutana úr sjóðnum o.s.frv. og stuðla að betra samspili, getum við sagt, milli mismunandi framlaga; koma í veg fyrir það sem kallað er yfirjöfnun og gæta þar með að grundvallarhlutverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem er að jafna stöðu sveitarfélaga með lægri tekjur þannig að allir íbúar landsins fái notið sams konar þjónustu frá sínu sveitarfélagi sama hvar þeir búa. Það hefur hins vegar verið ágreiningur um afmarkaða þætti þessa frumvarps, m.a. hvað varðar niðurfellingu framlaga úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaga sem ekki nýta að fullu lögbundna tekjustofna sína. Einnig hefur verið rætt um sjónarmið sem lúta að sérstöðu höfuðborgarinnar o.s.frv. En mér finnst rétt að kanna hvort tilefni sé til að leggja fram frumvarp um endurbætur á regluverkinu, mögulega þá í samráði við nefndina (Forseti hringir.) þar sem þessum meginmarkmiðum yrði haldið til haga óháð því sem hv. þingmaður er hér að spyrja um.